Náttúra landsins er ómetanleg þegar hún birtist okkur sem málning á striga. Við borgum okkur inn á hana. Höldum sýningar henni til dýrðar. Við tryggjum hana, gætum þess að snerta hana ekki nema með þar til gerðum hönskum og ráðum hámenntaða forverði til að hún haldist óbrengluð sem allra lengst. Og við finnum hvernig sker okkur í hjartað tilhugsunin ein, að sjá hana verða geðveikum náttúrufræðinema með dúkahníf að bráð.
Náttúran er hins vegar einskis virði þegar hún birtist okkur í sinni eigin mynd. Það er meira að segja löglegt að eyðileggja hana. Menn fá beinlínis borgað fyrir að drekkja henni. Það eru jakkafötin og dragtirnar sem mæta á opnun svona gersemasýninga sem skrifa tékkann.