Jóhannes úr Kötlum - Tilvitnanir

  [1899 - 1972] (Jóhannes Bjarni Jónasson) Rithöfundur og ljóðskáld, þýðandi, farkennari og alþingismaður

  Ég hylli hreystina og þorið.
  Ég hylli æskuna og vorið.
  Ég hylli allt það sem vex og vakir
  og vinnur óskipt að málum.
  Ég hylli glaður hinn öra eld
  í ungum, leitandi sálum.

  Ég hylli hjörtun sem brenna.
  Ég hylli tárin sem renna.
  Ég hylli vangann sem heitur roðnar,
  en hádegissólin logar.
  Ég hylli svitann sem hratt og títt
  af hvelfdu enninu bogar.

  Ég hylli hrynjandi lokka.
  Ég hylli seiðandi þokka.
  Ég hylli varir sem bljúgar bærast
  í bæn til lífsins um náð,
  - bæn, sem er flutt af fögnuði hjartans,
  til framkvæmdar nýrri dáð.

  Mér hægist um hjartsláttinn,
  mér hægist um andardráttinn,
  er æskan rís eins og öldufaldur
  og æðir fram - til að vinna,
  - áköf og fær í flestan sjó,
  að fyllingu drauma sinna.

  Mér opnast framtímans álfur,
  - það er eins og skaparinn sjálfur
  sé kominn að blása ást sinni í efnið,
  er æskan gegnur að verki,
  björt eins og dagur, brosleit og hrein,
  með blaktandi vorsins merki.

  Mér opnast framtímans álfur,
  - það er eins og skaparinn sjálfur
  sé kominn að blása ást sinni í efnið,
  er æskan gengur að verki,
  björt eins og dagur, brosleit og hrein,
  með blaktandi vorsins merki.

  Mér heyrist sem fjötrar hrynji,
  mér heyrist sem dauðinn stynji,
  mér heyrist sem eilífðin undir taki,
  er æskan jörðina blessar,
  - og heilagur andi himnum frá
  í hásalnum bláa messar.

  Það er eins og öldurnar glitri,
  það er eins og ströndin titri,
  er æskan stígur sín fyrstu heit,
  - heit, sem eru stoltari, sterkari
  og stærri en nokkur veit.

  Því alda aldanna líður
  og allur heimurinn bíður
  sem bandingi, er lausnina þreyttur þráir
  frá þjáningum stærri og stærri. -
  Og það er æskan ein sem trúir
  á það, að stundin sé nærri.

  Ég hylli hiklausa sporið.
  Ég hylli æskuna og vorið,
  - því þar er öll von minnar þjökuðu jarðar
  og þar er öll framtíð míns lands,
  ástin, trúin, eldurinn, krafturinn
  og - andi sannleikans.

  0

  Deila