[...] Hann [blaðamaðurinn] má aldrei tala þvert um huga sjer, og eigi láta hræða sig frá sannfæringu sinni, því að hennar má hann aldrei ganga á bak, þótt það gildi líf hans og mannorð, fé og fjör. Hann má því eigi láta það aftra sér, þótt alþýðuhylli hans liggi við, því sannleikurinn er meira verður; hann má eigi óttast það, þótt hann sjái, að sannleiksást hans gjöri vini hans að óvinum hans, og eigi óttast óvild manna, því að sannleikurinn er meira verður; hann má eigi þegja yfir sannleikanum, eða gjöra móti betri vitund til að geðjast öðrum, hvort sem þeir eru háir eða lágir, því sannleikurinn er meira verður.