Engin tunga bragðast eins engin tunga bragðast illa Tungur hafa rætur stofna og greinar eru brögðóttar mildar slóttugar kímnar kátar fullar af munúð hikandi haltrandi flæðandi græðandi hvassar ögrandi sumar smáar sumar gildar sumar ógnandi sumum ógnað Tungu má beita og breyta því verðum við að kyngja Við fengum tungu kvika og viðkvæma hún lætur illa að stjórn lagar sig að hverjum munni hún er gjöf og hún er gefins hverjum þeim sem vill opna upp á gátt Lifandi tilvist eign einskis Nú rofar til börnin fylla litla vasa af túnfíflum hlaupa færandi hendi inn í hlýjan faðm Fíflarnir eru gulir himinninn er blár og faðmurinn er opinn faðmurinn á alltaf að vera opinn Grjót er ekki bara grjót og lækur ekki bara lækur Allt er lifandi opnum upp á gátt og þiggjum Í fjallinu vex hundasúra við leggjum hana á tunguna og finnum hvernig hún bragðast eins og vor eins og nýtt upphaf eins og rót sem fikrar sig frá einu til annars