Það stóð hús í hjarta borgarinnar
    í Vonarstræti
    alveg við Tjörnina
    með Alþingishúsið í bakgarðinum.

    Þar í risinu bjuggu Vilborg og Þorgeir
    og synirnir tveir.

    Í kjallaranum var þvottahús.

    Einn daginn var Vilborg í kjallaranum
    með yngri soninn. Allt í einu
    verður henni litið upp frá suðupottinum
    og sér að drengurinn var hlaupinn út.

    Allt vill út í heiminn.
    Börn vilja sleppa út í heiminn.
    Hugsanir vilja sleppa út í heiminn.
    Ljóð vilja sleppa út í heiminn.

    Vilborg elti soninn.
    Sá hann hverfa fyrir hornið á Alþingishúsinu.

    Hún hljóp á eftir drengnum fyrir hornið
    og þá mætir hún hópi virðulegra karla
    hersingu ráðherra
    með forsetann í broddi fylkingar.

    Hún mætir þeim ein
    í klassískum klæðnaði kvenna
    sem stunda þvotta í kjallara.

    Eitt hikandi augnablik —
    uns forsetinn heilsar
    einkar mektuglega
    og tekur ofan
    og fyrst forsetinn heilsaði
    tóku þeir allir ofan, herrarnir.

    Allir höfðingjar taka á endandum ofan
    fyrir skáldinu
    fyrir móðurinni
    fyrir þvottakonunni

    Vilborgu
    skáldi í Vonarstræti.

    Ljóð til Vilborgar

    0

    Athugasemdir

    0

    Deila