Nei, þennan djöful þori ég ekki. Þetta eru lærðs manns dyr, lærðs manns gangur, lærðs manns hús. Í svona húsi er ekki hægt að biðja um peningalán. Í svona andlegu húsi er ekki hægt að tala um neitt nema lífsgátuna. Í svona húsi með doktorsgráðu talar fólk aðeins um lærðar bækur og háleit efni. Aldrei hefði Suðursveit beðið um lán í svona húsi. Suðursveit bað aldrei um lán í neinu húsi. Suðursveit tapaði einu sinni 50 krónum á að flytja fjölskyldu fátækraflutningi á rangan hrepp og borgaði þær út í hönd án þess að biðja um lán. Suðursveit! Ó, hjartans Suðursveitin mín. Þú varst svo ráðvönd. Og þú varst svo siðferðisleg. Faðir minn fór í sjóróðra austur á fjörðu til þess að geta keypt jörð. Ekki bað hann um lán. Og aldrei bað Þorsteinn á Felli um lán. Það eru aðeins mannleysur og glæpamenn, helvítis ræflar, sem biðja um lán. Svo gretti ég mig inn í ganginn ægilegustu grettunni sem andlitið á mér kunni, sný snerlinum fimmta part úr hring, pukra hurðinni aftur í dyrafalsið og læðist á tánum niður stíginn til þess að vera viss um, að ekki heyrist marr í fölinu undan löppunum á mér.

    Ofvitinn

    0

    Athugasemdir

    0

    Deila