Þannig endaði þessi brú. Brúin í Ross. Á einni hlið hennar er samsafn myndverka. Það komu listrænir fangar og luku verkinu. Þar má þekkja höfund brúarinnar, Daníel Herbert, og konu hans, Sir George Arthur landstjóra, ónefndan frumbyggja, veitingamanninn John Headlam og grimmu hundana hans, og svo eru þarna hjónin Nóra og Jörgen Jörgensen, útskorin einsog kóngur og drottning á spilum. Að sigra heiminn er einsog að spila á spil með spekingslegum svip og taka í nefið (og allt með glöðu geði gjarnan sett að veði) og þótt þú tapir það gerir ekkert til, það var nefnilega vitlaust gefið. Í upphafi skildu menn myndverkin á brúnni sem háð en nú benda íbúar bæjarins stoltir á þau, ekki síst á kónginn og drottninguna sem orðið hafa fulltrúar fanganna, og þá ekki síst kóngurinn sem reis upp á borgarafundi og mælti fyrir munn þessa fólks, þeirra réttlausu, fanganna sem höfðu engu að tapa nema hlekkjunum og áttu skýlausan rétt á að rödd þeirra hljómaði.

    0

    Athugasemdir

    0

    Deila