Það kviknaði eldur á efstu hæð,
í einu húsi við Laugaveginn.
Og því verður ekki með orðum lýst,
hvað allur sá lýður varð harmi sleginn.
Það tókst þó að slökkva þann slóttuga fant,
því slökkviliðið var öðru megin.
Og því verður ekki með orðum lýst,
hvað allur sá lýður varð glaður og feginn.
En seinna um daginn, á sömu hæð,
í sama húsi við Laugaveginn,
þá kviknaði eldur í einni sál,
í einni sál, sem var glöð og fegin.
Og enginn bjargar og enginn veit,
og enginn maður er harmi sleginn,
þó brenni eldur með ógn og kvöl
í einu hjarta við Laugaveginn.